Eftir að undirritaður hafði verið valinn sóknarprestur var fyrsta verkefnið að finna stað fyrir guðsþjónustuhald. Sóknarnefndin og sóknarprestur áttu gott samtal við skólastjóra Foldaskóla og fræðsluyfirvöld í Reykjavík og fengu aðstöðu í félagsmiðstöðinni Fjörgyn fyrir guðsþjónustuhald og rými í skólanum fyrir skrifstofu prestsins.
Hafist var handa við kirkjustarfið af miklum og einlægum áhuga og dugnaði safnaðarfólks. Félagsmiðstöðin Fjörgyn varð að “kirkju” á sunnudögum. Barnamessur voru kl.11:00 og almennar guðsþjónustur kl. 14:00. Gífurlegur áhugi skapaðist gagnvart öllu safnaðarstarfi. Ekki ósjaldan var húsfyllir í messunum fyrir og eftir hádegi. Andi fumkvöðlana sveif yfir vötnunum. Safnaðarfólk taldi það ekkert eftir sér að raða stólum í það óendanlega, því “kirkjan” þurfti í lok sunnudagsins að breytast í félagsmiðstöð á ný. Í félagsmiðstöðinni ríkti svo sannarlega góður andi, allir sameinuðust í því að lyfta grettistaki í safnaðarstarfinu.
Margt skemmtilegt kom upp á í guðsþjónustum og í starfinu sjálfu. Augnablikin eru mörg ógleymanleg eins og þegar diskóljósin fóru að blikka í miðri guðsþjónustu og glitrandi hnöttur snérist og sendi geisla sína um allan ”messusalinn”. Margir álitu þá að nýi presturinn væri þetta” poppaður.”
Margir kirkjugestir höfðu gaman að því að á bak við prédikunarstólinn í félagsmiðstöðinni var um tíma risastór mynd af sjálfri Marlyn Monroe. Auðvitað var hægt, og það gert, að tengja líf hennar og frægð inn í prédikun sunnudagsins.
Á skrifstofu sóknarprestsins gerðist margt skemmtilegt en þar átti ég gott samstarf við ræstitækna skólans. Fundarstaður sóknarnefndarinnar var kennarastofa Foldaskóla.
Þessir tímar þegar Grafarvogssöfnuður var að ýta úr vör öllu safnaðarstarfi voru einstakir og ógleymanlegir. Fólk sem hefur greint frá slíku frumkvöðlastarfi segir að ekkert jafnist á við slíkt starf. Það eru viss forréttindi að fá að vera þátttakandi í slíku safnaðarstarfi sem allt átti sér stað í Foldaskóla á sínum tíma.
Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan. Þegar söfnuðurinn var stofnaður voru sóknarbörnin rúmlega þrjú þúsund talsins. Nú á afmælisári Foldaskóla, árið 2005, eru þau um tuttugu þúsund. Þeim hefur því fjölgað að meðaltali um 90 í mánuði í sextán ár, eða um 3 sóknarbörn á dag. Starfið hefur því breyst, prestarnir eru orðnir fjórir að tölu og fjöldi starfsfólks orðinn þó nokkur.
Upphafið og einstaklega gott samstarf við Foldaskóla við stofnun sóknarinnar, þegar traustur grunnur var lagður að öllu safnaðarstarfinu, gleymist ekki. Fyrir það vill ég þakka af heilum hug.
Vigfús Þór Árnason
sóknarprestur Grafarvogssafnaðar