Ég á 1141 vin.
Það finnst mér mikið.
Eða réttara sagt, ég á 1141 vin á Facebook. Það er víst ekki það sama og að eiga allan þennan fjölda vina.
Sumir þessara Facebook vina eru vinir mínir.
Aðrir eru kunningjar.
Suma rétt svo kannast ég við.
Og svo eru þarna fjölskyldumeðlimir og ættingjar.
Ég ætla ekki að tala um Facebook í dag.
Ég ætla að tala um vináttu.
Ég á sannarlega ekki 1141 vin. Ég veit ekki hvað ég á marga vini því ég hef aldrei talið þá. Kannski er það vegna þess að mörkin milli vináttu og kunningsskapar er bæði færanleg og teygjanleg. Sumir vinir stoppa lengi við, jafnvel alla ævi, á meðan aðrir koma við í stuttan tíma en halda svo annað.
Ég held að ég eigi ekkert óvenju marga vini en vinir mínir koma úr ólíkum áttum. Ég á trúaða vini og trúlausa. Ég á íslenska vini og útlenska. Ég á nána vini sem ég hitti oft eða er í miklu sambandi við og ég á vini sem ég hitti sjaldan og tala ekki oft við.
Það sem þetta fólk, sem ég tel vera vini mína, á sameiginlegt er að ég get treyst því fyrir því hver ég er, svo langt sem það nær. Það sama á við um þau sem ég tel vini mína. Þau hafa treyst mér fyrir því hver þau eru.
Vinir en ekki þjónar
Við heyrðum áðan sagt frá því þegar Jesús tilkynnir lærisveinum sínum að að hann líti ekki lengur á þá sem þjóna heldur sem vini sína. Ástæðan er sú að hann hefur deilt svo miklu með þeim um það hver hann er.
Munurinn felst í því að hann hefur treyst þeim fyrir því hver hann er og hann útskýrir einnig að þjónar viti ekki hvað húsbóndinn gerir en vinirnir viti það.
Þetta snýst um traust.
Það hlýtur að vera betra að vera vinur en þjónn, er það ekki? Vinur er jafningi en þjón er lægra settur þeim sem hann þjónar og veit ekki alltaf hvað húsbóndinn hefst að.
Eða hvað?
Reyndar held ég að það hafi orðið svolítill viðsnúningur á merkingu þessara hugtaka í samfélagi okkar í dag. Í það minnsta í ákveðnu samhengi.
Þjónn
Í dag þykir fínt að leiðtogar og fólk í forystu kalli sig þjóna og temji sér þann hugsunarhátt að það sé að þjóna öðrum, ekki síst fylgjendum sínum eða jafnvel undirmönnum.
Reyndar rímar þetta vel við bæði framkomu Jesú orð oft á tíðum, þegar hann líkir sér við þjón og segist vera kominn til að þjóna en ekki til að láta þjóna sér. Hann þvær t.d. fætur lærisveina sinna til þess að leggja áherslu á þetta. Það var bara ekki búið að finna upp hugtakið “þjónandi forusta” þá. En ef einhver stundaði þjónandi forustu þá var það Jesús Kristur.
En þessi merking orðsins þjónn snýst um að þau sem eru í valdastöðu sjái sig þeirra sem jafnvel eru háð þeim á einhvern hátt.
Vinur
Yfirleitt leggjum við jákvæða merkingu í hugtakið vinur en þó hefur það breyst svolítið undanfarin ár í samfélagi okkar hér á landi. Orð eins og vinavæðing og vinagreiði eru ekkert sérstaklega jákvæð þegar kemur að því að reka okkar litla samfélag sem lengi gekk út á það að eiga réttu vinina og gerir enn í einhverjum mæli.
Þannig öðlast þetta annars fallega orð “vinur”, neikvæða merkingu þegar nútíma stjórnunaraðferðir og siðmenning mætir eldri og úreltari aðferðum vinamenningarinnar.
Vinur eða þjónn
Það er ekki úr vegi í dag, þegar frídagur verkamanna er ný liðinn, allt logar í verkföllum og valdaöflin eiga erfitt með að leyna pirringi sínum út í hin lægst launuðustu sem heimta hærri lágmarkslaun eins og ekkert sé, að setja þessi orð Jesú um vináttuna og þjónustuna í samhengi við ástandið í þjóðfélaginu.
Jesús segir lærisveinum sínum að þeir séu ekki þjónar hans heldur vinir því hann sé búinn að deila öllu með þeim. Allt er uppi á borðinu og þeir vita allt sem þeir þurfa að vita um hvern annan. Það ríkir traust.
Kannski má líkja lýðræðissamfélagi við vináttu því það byggist á því að öll höfum við sömu stöðu þegar kemur að því að tjá okkur og að kjósa. Við höfum öll rétt á að mótmæla og kjósa annað fólk til forystu í næstu kosningum ef við erum ósátt.
Í samfélagi okkar, sem fékk stóran skell fyrir nokkrum árum vegna lélegs siðferðs, spillingar og misbeitingu valds, erum við farin að gera ríkari kröfu um að þau sem við veljum til valda, líti á sig sem þjóna. Að þau sem við réttum völdin upp í hendurnar eigi að bera virðingu fyrir því trausti sem þeim hefur verið sýnt og að þau sýni auðmýkt gagnvart því valdi sem þau hafa fengið til umráða.
Stjórnvöld og allt fólk í valdastöðum ætti ávallt að taka sér Jesú Krist til fyrirmyndar og líta á fólkið sem kýs þau, fólkið sem þau eru í valdastöðu gagnvart, sem vini. Þ.e.a.s að iðka samtal og gagnsæ vinnubrögð því vinir vita hvað vinir hafast að. Að öðrum kosti ríkir vantraust og á þeim stað erum við því miður í dag.
1141 vinur
Það sem Jesús vildi kannski fyrst og fremst segja lærisveinum sínum þá og okkur í dag er að við erum vinir Guðs. Við erum ekki þjónar sem Guð heldur frá sér heldur vinir sem Guð vill hafa nálægt sér.
Þetta eru mikilvæg skilaboð til okkar sem búum í samfélagi þar sem lítið traust til valdaafla, stofnana og yfirboðara ríkir. Guð er ekki eins og hinn dæmigerði íslenski valdhafi virðist stundum vera, sá sem misbeitir valdinu og nýtir það fyrst og fremst í eigin þágu.
Jesús Kristur boðar að til sé annars konar vald, þjónandi vald og vinátta.
Ég á ekki 1141 vin en ég á nóg af vinum og fyrir það er ég þakklát. Ég er líka þakklát fyrir að fá að þjóna þér. Að fá að vera presturinn þinn. Og jafnvel facebook vinur þinn.
Amen.