Hér má sjá viðtal sem birtist við sr. Vigfús í Lifun, aukablaði Morgunblaðsins, föstudaginn 6. mars 2015.

Vigfús Þór: „Kristin trú hefur verið kölluð kærleikstrúarbrögðin.“

Vigfús Þór: „Kristin trú hefur verið kölluð kærleikstrúarbrögðin.“

„Sjálfur fermdist ég hjá séra Árelíusi Níelssyni í Fríkirkjunni í Reykjavík fyrir heilum 55 árum,“ segir séra Vigfús Þór Árnason glaðlega og dregur fram gamla mynd af sjálfum sér og fermingarsystkinum sínum. Hann sýnir mér hvar hann stendur í öftustu röð með ómótað unglingsandlit.

„Ég var farinn að blessa með handayfirlagningu þegar ég var smástrákur,“ segir hann. „Amma mín, Guðrún Bríet Guðmundsdóttir, sem var í hópi þeirra sem unnu að byggingu Hallgrímskirkju, fór oft með mig í messu. Einu sinni kom hún að mér þar sem ég hafði lagt tvo ullarsokka afa míns yfir axlirnar og blessaði olíukyndivél af miklum hátíðleik. Snemma beygist krókurinn,“ segir séra Vigfús og leggur frá sér gömlu myndina. Hann kveðst hafa verið fyrst í sunnudagaskóla í Hlíðunum og síðan hjá séra Árelíusi, presti í Langholtssöfnuði. „Einnig hjá bræðrum sem voru með kristnifræðslu við Holtaveg. „Um tíma var ég fyrsti formaður Æskulýðsfélags Langholtskirkju.

Seinna tók ég þátt í að byggja upp fyrstu poppmessuna í Hálogalandi, þar sem voru mörg hundruð manns. Við fengum hljómsveitina Flowers til að spila. Þeir völdu lag sem var mjög vinsælt þá: Haltu kjafti og slappaðu af. Um þetta urðu nokkrar deilur. Þá var prestur í Langholtssókn ásamt Árelíusi séra Sigurður Haukur Guðjónsson. Kirkjan var alltaf inni í myndinni hjá mér. Ég var teiknaður með geislabaug yfir höfðinu í nemendaritinu Ynglingatal Kennaraskóla Íslands, en þaðan tók ég stúdentspróf,“ segir hann.

Vigfús Þór vígðist til Siglufjarðarsóknar árið 1976. „Þangað kominn sinnti ég auðvitað öllum mínum prestsverkum en jafnframt kenndi ég við grunnskólann, stundum meira en fulla kennslu og var auk þess í bæjarstjórn. Þetta var góð reynsla og skemmtileg. Árin á Siglufirði kenndu mér margt.“

Hvernig háttaðir þú fermingarfræðslu þinni?

„Fyrsta árganginn nyrðra fermdi ég 1977. Ég tók talsvert mið af því sem ég hafði séð og heyrt í fermingarundirbúningnum hjá séra Árelíusi. Hann lét okkur til dæmis gera vinnubók. Á þeim tíma var miklu meira um utanaðbókarlærdóm en nú er. Ég var uppi við töflu að skrifa og teikna en nú er byggt mun meira á samtali.“

Eru krakkar mikið öðruvísi núna en þau voru þegar þú varst að byrja prestsstarfið?

„Þau eru miklu opnari núna og spyrja um hluti sem krakkar á fyrri tíð hefðu ekki haft uppburði í sér að spyrja um, þótt þau hafi ábyggilega verið jafnforvitin og börn nútímans. Krakkarnir í fermingarfræðslunni hjá okkur, prestum sem starfa hér við Grafarvogskirkju, spyrja óhikað nú út í hjónalíf og þess háttar. Annars eru stúlkurnar talsvert á undan í þroska. Þær eru miklu fullorðinslegri í hátt en fyrstu fermingarbörnin mín á Siglufirði. En börn nútímans eru efnileg og ég bind góðar vonir við æsku landsins.“

Flest börn í Grafar vogssókn fermast

55 ára fermingaramæli. Fermingarbörn Langholtssafnaðar 3. apríl 1960 fermdust frá Fríkirkjunni í Reykjavík þar sem ekki var búið að taka Langholtsirkju í notkun. Þau hafa rætt um að hittast í tilefni dagsins.

55 ára fermingaramæli. Fermingarbörn Langholtssafnaðar 3. apríl 1960 fermdust frá Fríkirkjunni í Reykjavík þar sem ekki var búið að taka Langholtsirkju í notkun. Þau hafa rætt um að hittast í tilefni dagsins.

Séra Vigfús hefur mikla reynslu af unglingum. Hann varð prestur í Grafarvogssöfnuði 1989. „Ég var fyrsti sóknarpresturinn hér og þá var hér ekki svona stór sókn. Ég fermdi fyrstu þrjá árgangana í Árbæjarkirkju. Þá voru um 100 krakkar í árganginum. Hér var strax mjög mikið af ungu fólki og börnum. Síðar bættust við fleiri prestar eftir því sem söfnuðurinn stækkaði. Við fermum saman prestarnir alla hópana. Nú starfa í Grafarvogssókn fjórir prestar og í ár fermum við 250 börn. Þegar flest var af börnum í sókninni voru fermingarbörnin 330. Hér fermist hátt hlutfall barna, yfir 90 prósent og í tvö ár var hlutfallið hundrað prósent eða allur árgangurinn. Svona er þetta gjarnan úti á landi.

Oft er talað um að börn fermist upp á gjafir og veislu. En ef maður ræðir þetta við þau þá móðgast þau. Þau eru vel heima í samfélagsmálum og eru opin og telja sig vita vel sinn vilja. Nýja fermingarfræðslubókin Con Dios, Með Guði, er mjög nútímaleg og svarar mörgum spurningum um lífið og tilveruna. Fermingarfræðslan hér byrjar í ágústlok og stendur fram í apríl. Einnig fara krakkarnir á fermingarbarnamót í Vatnaskógi í tvo daga, þar fer fram bæði fræðsla og skemmtun. Loks er tekið próf í fermingarfræðunum. Það er því eðlilegt að unglingum þyki það nokkur vanvirðing að ætla þeim að hafa gert þetta allt saman bara fyrir gjafir og veislu. Vissulega þykir þykir ungu fólki gaman að gjöfum og veislum, rétt eins og öðru fólki í samfélaginu. En sannleikurinn er sá að þau fermast flest fyrst og fremst af innileika.“

Hvað er þér eftirminnilegt úr kristilegu starfi þínu?

„Ég man vel þegar ég fór sem skiptinemi í hópi ungmenna árið 1964 til Bandaríkjanna. Þar starfa trúfélög og söfnuðir sjálfstætt og safnaðarstarfið sem við kynntumst var einstaklega líflegt. Þegar ég var að segja kunningjum mínum frá þessu og pítsugerð í Bandaríkjunum, á eina hamborgarastaðnum sem hér var þá starfandi, þá skildu þeir ekki alveg hvað ég var að fara. En Bandaríkjaferðin var mjög áhugavekjandi. Þess má geta að einn úr þessum skiptinemahópi var Karl Sigurbjörnsson, síðar biskup.

Eftir að ég hafði þjónað sem prestur á Siglufirði í tólf ár fékk ég ársleyfi og fór til náms til Berkeley í Bandaríkjunum ásamt Elínu Pálsdóttur konu minni og börnum okkar þremur. Elín hefur sl. 25 ár starfað sem forstöðumaður Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í innanríkisráðuneytinu, en fer senn að ljúka störfum, eins og ég. Mitt fertugasta og síðasta starfsár er að hefjast nú í aprílbyrjun. Sérkennileg tilfinning fylgir þeim áfanga.“

Krakkarnir vilja vita og skilja

Hvað viltu segja um fermingarundirbúning nútímans?

„Fermingarfræðslan nú er mikið í þeim farvegi að spyrja um og skilja hvað trúin er. Kristin trú hefur í gegnum aldirnar verið kölluð kærleikstrúarbrögðin. Kristur lagði svo mikla áherslu á fyrirgefningu og kærleika. Ég segi því við fermingarbörnin: „Þið vitið hverju þið eigið að svara þegar þið eruð spurð um inntak kristinnar trúar? Þið svarið: Í fyrsta lagi kærleikur, í öðru lagi kærleikur, í þriðja lagi kærleikur. Hin kristna trú á að vera hin öfgalausa og opna trú. Kristur lagði áherslu á að dæma ekki – Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum.“

Finnst þér samfélagið hafa þróast frá þessum áherslum? „Það var jákvætt hér áður að vera trúaður, til dæmis á hinum miklu umbrotstímum þegar hippamenningin kom fram. Ég nefni sem dæmi söngleikinn um Jesú Krist „Superstar“ og lagið: Love is all you need. Hér í Grafarvogssókn ákváðum við að kynna fermingarbörnunum okkar helstu trúarbrögð heims til að auka umburðarlyndi þeirra og skilning.

Andinn í samfélaginu hefur að mér sýnist breyst hvaða kirkjuna snertir. Hér kom um daginn prófessor með erindi um trúarbrögð. Hann var spurður hvernig honum fyndist að vera trúaður í háskólaumhverfinu núna. Hann hristi bara höfuðið. Ýmsir í samfélaginu eru nú um stundir fremur viðkvæmir fyrir kristinni trú og þjóðkirkjunni. Þannig var það ekki áður og þetta finnum við ekki hjá fermingarbarnahópnum, né í söfnuðinum sjálfum. Miklu frekar vilja fermingarbörnin vita og skilja. Sjálfur hef ég þá skoðun að fræðsla um mismunandi trúarbrögð sé af hinu góða.“

Eru fermingarbörn nútímans fordómafull?

„Nei, það eru þau ekki, þvert á móti. Margir krakkar eiga fráskilda foreldra og stjúpforeldra. Þau rétta upp hönd og spyrja til dæmis óhikað hvort þeir megi báðir koma, „pabbi minn og alvörupabbi minn“. Þannig er algengt að þau skilgreini blóðforeldri frá fósturforeldri. Önnur börn í fermingarfræðslunni líta ekki einu sinni upp við svona spurningar. Þeim þykja þær eðlilegar, þau eru yfirleitt frjálslynd og sjálfstæð. Þau eru ekki gagnrýnin á kirkjuna, fremur á þjóðfélagið. Þetta er reynsla mín hér í Grafarvogskirkju.“

Koma fermingarbörnin þín í kirkjuna sem fullorðið fólk?

„Þau hverfa oft um tíma en svo koma þau gjarnan aftur. Um daginn komu til dæmis hjón sem ég hafði fermt hér bæði á sínum tíma. Þau voru að koma með barn sitt í fermingarfræðslu. En óneitanlega kemur rof í kirkjusókn fólks meðan það er að koma undir sig fótunum og er með lítil börn.“

Hvað viltu segja um áhrif tækninnar á unglinga?

„Þar hef ég svolitlar áhyggjur. Ég var á Spáni um daginn og sá þá fjölskyldu sitja við borð, hjón með tvö börn og afi og amma. Krakkarnir sátu með ipadinn sinn þannig að geislinn sást undir borðinu, faðirinn var að tala í símann sinn og móðirin pikkaði á fartölvu. Afinn og amman sátu og störðu á fólkið sitt.

Fermingin markar viss tímamót á þroskaskeiðinu. Ég segi fermingarbörnunum að slökkva á farsímum sínum. Þau gera það. En eftir svona fimmtán mínútur leitar höndin eins og ósjálfrátt í vasann, í símann. Svo kemur lágvært símtal: „Hæ.“ Á móti er svarað: „Hæ.“ Sá sem hringir segir þá: „Ég er í fermingarfræðslu.“ Og hinn svarar: Ókei, bæ.“

Ég segi með jöfnu millibili við krakkana – og þau eru farin að endurtaka með mér síðari hluta setningarinnar: „Þið vitið krakkar að þið stjórnið gemsanum – en gemsinn ekki ykkur.“ Það er oft gaman að viðbrögðum unglinga. Mér er til dæmis minnisstæður strákur sem ég fermdi á dögunum, rólegur strákur og duglegur, sem hélt sig heldur til hlés. Þegar ég spurði hann fyrir altarinu: „Viltu leitast við að gera Jesú Krist að leiðtoga lífs þíns?“ þá rétti strákur upp hönd með krepptum hnefa og sagði hátt og af hjartans einlægni: „Yes.“ Þetta var hans máti að svara – eins og svo margra af hans kynslóð. Þetta skemmtilega atvik lýsir dálítið tíðarandanum.“

gudrunsg@gmail.com

Viðtalið birtist í Morgunblaðinu (Lifun aukablað) föstudaginn 6. mars 2015.