Að gifta sig er hamingja en að skilja er óhamingja. Eða hvað?
Kannski er þetta frekar einhvern veginn svona: Að gifta sig er yfirleitt hamingja en að skilja er alltaf erfitt. Hjónaskilnaðir er ekki allir óhamingjusamir þó þeir séu alltaf erfiðir. Oft þýðir skilnaður betra líf, betri líðan fyrir flest eða öll í umhverfi parsins sem skilur.
Við erum alin upp við ævintýraleg endalok, eigum að lifa hamingjusöm til æviloka en ekki bara í 12 ár, 20 ár eða 3 ár, skilja þá og gifta okkur kannski aftur síðar. Eða ekki.
Lítið hefur verið rannsakað hvernig fólki sem gengur í gegnum hjónaskilnað gengur að vinna úr tifinningunum, sorginni sem því honum fylgir. Sorgin sem fólk finnur fyrir er ekki ósvipuð þeirri sem fólk gengur í gegnum þegar það missir maka og á við hvort sem viðkomandi vildi skilja eða ekki. Sorgin getur síðan verið misjafnlega djúp og í sumum tilfellum hófst hún löngu áður en sjálfur skilaðurinn átti sér stað.
Hópur þeirra er skilja er stór og lítið hefur verið í boði fyrir hann. Það er engin útför eða erfidrykkja eftir hjónaskilnað. Fólk sendir hinum fráskildu hvorki samúðarkort né blóm. Þrátt fyrir að nú sé árið 2013 erum við enn tilbúin til þess að líta á hjónaskilnaði sem okkar verstu mistök og þeygjum þá reynslu helst í hel. Við áttum jú að lifa saman hamingjusöm til æviloka.
Prestar og djáknar hafa mikla þjálfun í að vinna með fólki í sorg og sorgarhópar í kirkjum hafa reynst vel í kjölfar ástvinaamissis. Í Grafarvogskirkju nýtum við þá reynslu til þess að vinna með fólki sem hefur gengið í gegnum skilnað. Þessir sjálfstyrkingarhópar fyrir fólk sem hefur skilið hafa reynst afar vel.
Umsjón með hópunum hafa sr. Guðrún Karls Helgudóttir srgudrun@grafarvogskirkja.is og sr. Sigurður Grétar Helgason. Hóparnir verða sex fimmtudagskvöld frá 12. september – 31. október kl. 20:00 – 22:00 en fyrsta kvöldið er kynning.
Kostnaður er kr. 7000.