† Hemmi Gunn
Í gærkvöldi og í morgunn, var íslensku þjóðinni brugðið. Fjölmiðlamaðurinn, hinn dáði íþróttamaður, hann Hemmi Gunn var ekki lengur mitt á meðal okkar á landi lifenda.
Hann var að leggja af stað heim, frá Thailandi er kallið kom undurfljótt. Í trúnni sem Hemma var kær, er það oft nefnt að við séum „að fara heim er kallið kemur“. Hann var kallaður heim, allt of fljótt, aðeins 66 ára gamall, fæddur 1946.
Þar heima eins og hann Hemmi nefndi það eftir sérstaka lífreynslu fyrir nokkrum árum „skín hið skærasta ljós“ og þar eru englarnir okkar yfir og allt um kring, með eilífri blessun sinni.
Hann Hemmi var ekki hræddur við hið ókomna. Hann vissi að eitthvað stórkostlegt tæki við, er lífi lýkur hér á jörðu. Það er reyndar kjarninn í okkar kristnu trú.
Ef að hann Hemmi væri að ávarpa ykkur hér á þessari stundu ættingjar og vinir á Hlíðarenda, Valsheimilinu, sem var honum svo kært, myndi hann án efa segja við ykkur hvert og eitt.
Njótið dagsins. Njótið þess að vera til. Lífið er yndislegt.
Verið glöð það er svo margt sem skapar hjá okkur gleði í lífinu – innri gleði. Sjálfur var hann mikill gleðigjafi. Færði gleði inn heimili okkar Íslendinga um áratugaskeið. Hlátur hans og gleði, sönn gleði smitaði út frá sér. Heyrið þið hann ekki hlæja.
Þegar við minnumst hans sem fjölmiðlamanns kemur eðlilega upp í hugann, vinsælasti sjónvarpsþáttur, sem hefur verið framleiddur á Íslandi, ég þarf ekki að nefna nafnið „Átali hjá Hemma Gunn“
Hvernig gat hann glatt nánast alla Íslendinga um langan tíma. Fengið mesta áhorf sem mælst hefur hér á landi fyrr og síðar. Já og hvernig hann gat fengið fólk til að taka þátt í sjónvarpsþáttum sínum, sem voru mjög svo lifandi. Ekki man ég, hvernig hann eftir umræður um lífið og tilveruna, fékk þann sem hér talar og son minn til að dansa í beinni útsendingu við professional fólk í dansíþróttinni. Ekki kemst ég hjá því að nefna viðtöl hans við börnin, sem voru einstök svo ekki sé meira sagt.
Líklega tókst það svo vel, af því hann var svo einlægur og ljúfur sjálfur. Hann náði til barnanna.
Sem fjölmiðalamaður í allri dagskrárgerð náði hann ávallt til áheyrandans.
Hér í dag beinist hugur okkar eðlilega að honum sem íþróttamanni. Ég tók strax efir honum þegar að hann var að keppa fyrir Verzló hvort sem það var í handbolta eða knattspyrnu. Konan mín var í sama árgangi og hann í Verzló. Þar eins og síðar með Val bar hann af – margir þó góðir, sumir staddir hér í dag. Hann var ávallt fremstur á meðal jafningja.
Taka má undir með vini hans Herði Hilmarssyni og veit ég, að hinn góði og trausti vinur hans og Valsari, hann Halldór sem oftast er kallaður Henson, er Hörður sagði: „Hermann var einn besti leikmaður íslenskrar knattspyrnusögu – einn af tíu bestu. Og snjall var hann í handboltaum,“ sagði Hörður.
Hann var „náttúrutalent“ hafði alla sína eiginleika – hæfileka í blóðinu. Þurfti aldrei að hafa fyrir hlutunum, en í knattspyrnunni var hann ávallt á réttum stað til að skora. Hann eyddi ekki miklum tíma í að hita upp- sem í dag er talið svo mikilvægt, hann fór bara beint inn á og keppti bara og auðvitað skoraði hann.
Hér í dag höfum eðlilega litið til hans Hemma sem íþróttamanns.
Frá ætterni hans og lífsferð verður greint á kveðjustundu hans.
Foreldrar hans voru þau, Björg Sigríður Hermannsdóttir og Gunnar Gíslason vélstjóri, þau hjónin eignuðust fjögur börn, á lífi eru Kolbrún og Ragnar.
Börn Hermanns eru 6 að tölu, Þórður, Sigrún, Hendrik Björn, Björg Sigríður og Eva Laufey.
Afi Hermanns, Hermann G. Hermannsson var einn þeirra sem stofnaði Knattspyrnufélagið Val, ásamt æskulýðsleiðtoganum séra Friðriki Friðrikssyni fyrir rúmri öld síðan.
Á Ólympíuleikjunum í Munchen á sínum tíma söng óperusöngvarinn Carreras og óperusöngkonan Sarah Brightman, lagið fallega „Amicos para sempre“ verið vinir að eilífu. Hemmi var sífellt að benda á vináttuna, með gleði sinni, hlátri og einlægni.
Hann Hemmi var svo sannarlega „góður drengur“ og traustur vinur.
Við ljúkum þessum minningaroðrum með orðum hans,
„Verið hress, ekkert stress og bless, bless“.
Amen.