Þessi litlu slagorð eru kjarni þeirrar hugsunar sem við ætlum að byggja á kringum messuna í framtíðinni. Til þess að svo megi verða, leitum við til þín sem tilvonandi messuþjóns við kirkjuna. Í stað þess að messan sé borin uppi af presti, tveimur sóknarnefndarmönnum, organista og kór, þá er hópur fólks fenginn til verksins.
Messuþjónar mynda fjögurra til fimm manna hópa og þjónar hver hópur í tveimur til þremur messum á misseri. Bindingin er því afar lítil, en messan fer að tala á annan hátt til þín en hún hefur gert fram til þessa. Þú leggur þitt af mörkum við að gera hana meira lifandi.
Hver hópur getur verið samsettur af vinum, fólki sem aldrei hefur áður þekkst, nú eða fjölskyldu og svo geturðu einnig látið dagsetningar sem henta þér ráða því í hvaða hópi þú lendir.
En hvað gera messuþjónar?
Hópurinn mætir til skrafs og ráðagerðar í vikunni fyrir messu og skiptir með sér verkum. Verkefnin eru næg, svo sem að bera inn helgigripina (kross, ljós, Biblíuna, altarisgripina), einhver sér um kaffið, annar afhendir sálmabækur, tvö úr hópnum lesa úr Ritningunni og tvö taka þátt í almennu bæninni og þjónusta við altarisgöngu o.s.frv. Við skiptum með okkur verkum og njótum svo samvista yfir kaffibolla og ,,meððí“ eftir messu.
Hópurinn mætir kl. 10:00 á þeim helga degi sem hann er skráður til þjónustunnar. Hver og einn gengur inn í sitt verk af öryggi, enda búið að fara vel yfir allt á undirbúningsfundinum. Og jafnvel þótt messan sé alltaf jafn heilög og falleg, þá verður nærvera messuþjónanna til þess að skapa ákveðna dínamík sem talar svo vel til okkar allra.
Vilt þú verða messuþjónn? Eða viltu afla þér nánari upplýsinga? Hafðu þá samband við presta kirkjunnar í síma 587-9070 eða komdu við í kirkjunni og við munum taka fagnandi á móti þér.