Séra Lena Rós Matthíasdóttir prédikar og þjónar fyrir altari.
Organisti er Hákon Leifsson
Jón Þorsteinsson syngur einsöng og leiðir almennan safnaðarsöng
Messuþjónar lesa ritningarlestra
Gamlir og nýir messuþjónar sérstaklega boðaðir til guðsþjónustu og hádegisfundar að henni lokinni. Hér er kjörið tækifæri að kynna sér þátttöku í þjónustu við Grafarvogssöfnuð.
Hvað er messuþjónn?
Messuþjónn er sá/sú sem hefur áhuga á að þjóna við helgihald safnaðarins. Aðaláhersla þjónustunnar er á guðsþjónustur sunnudagsins. Í dag eru starfandi tíu messuþjónahópar við kirkjuna og ellefti hópurinn settur á laggirnar til að fylgja úr hlaði umhverfisverkefninu ,,Ljósaskrefunum“, en því verkefni svipar mjög til ,,Grænfánans“ í grunnskólunum. Gott væri að fá til þjónustunnar fólk sem elur önn fyrir yngri kynslóðunum í söfnuðinum og allar hugmyndir vel þegnar. Stefnt er að því að koma upp a.m.k. 4 messuþjónahópum fyrir báða sunnudagaskóla kirkjunnar. Ef þú telur þig hafa hæfileika, getu og áhuga fyrir því, þá þætti okkur vænt um liðsinni þitt og þjónustu.
Möguleikarnir með þjónustu við kirkjuna þína eru óþrjótandi. Það eina sem þú þarft að hafa til að bera, er áhugi fyrir þjónustu við Guð og menn. Þjónustan snýst ekki aðeins um að gefa, heldur einnig að þiggja. Fjölmargir messuþjónar upplifa starfið nærandi og gefandi, en messuþjónum hefur einnig boðist að sækja metnaðarfull námskeið á vegum Leikmannaskóla kirkjunnar, sér að kostnaðarlausu. Þá er farið að vori í sólarhringsdvöl í Skálholt og sú dvöl að mestu niðurgreidd af kirkjunni.
Ert þú kannski einmitt sú manneskja sem við höfum verið að leita að? Án nokkurs vafa hefurðu af miklu að miðla. Komdu til kirkju og kannaðu málið, það kann að verða stórt heillaskref í lífi þínu.
Um einsöngvara sunnudagsins:
Á vef Wikipediu segir um Jón Þorsteinsson: Jón Þorsteinsson (fæddur 11. október 1951) er íslenskur tenórsöngvari sem hefur lengstum starfað í Hollandi við Ríkisóperuna í Amsterdam, eða frá árinu 1980. Hann hlaut verðlaun í óratóríusöngkeppninni í Amsterdam árið 1983.
Jón stundaði fyrst söngnám í Noregi og í þrjú ár söng hann við Det Jyske Musikkonservatorium í Árósum. Síðan stundaði hann nám á Ítalíu og um tveggja ára skeið söng hann fyrstur Íslendinga í óperukór Wagner-tónhstarhátíðarinnar í Bayeruth í Þýskalandi. Hann hefur einnig túlkað og sungið kirkju- og nútímatónlist víðs vegar um Evrópu, unnið til verðlauna á þeim vettvangi og sungið einsöng á óperusviði og með kórum í flestum löndum Evrópu og í Bandaríkjunum. Jón hefur einnig tekið þátt í starfi Pólýfónkórsins sem einsöngvari og einnig með Kór Langholtskirkju, Fílharmóníukórnum og Passíukórnum á Akureyri.
Verið hjartanlega velkomin!