Séra Bjarni Þór Bjarnason, prestur í Grafarvogskirkju hefur fengið ársleyfi frá störfum við Grafarvogskirkju frá 1. ágúst 2011. Hann fer til starfa í Seltjarnarneskirkju frá þeim tíma í eitt ár. Í hans stað kemur séra Sigurður Grétar Helgason sóknarprestur í Seltjarnarneskirkju til starfa hér í Grafarvogssöfnuði í sama tíma. Segja má að prestarnir hafi með sér eins konar vistaskipti, og er þetta liður í viðleitni þjóðkirkjunnar að gera starfsmönnum hennar kleift að afla sér sem víðtækastrar starfsreynslu og kynnast nýjum sóknum.
Séra Sigurður var vígður prestur við Seltjarnarneskirkju árið 1998 og skipaður sóknarprestur árið 2000. Sigurður hefur verið farsæll í starfi og vinsæll og er sóknarnefndin þar vestur frá stolt af miklum árangri sem náðst hefur undir hans forystu, ekki síst í barna- og æskulýðsstarfi og starfi eldri borgara. Söfnuður Grafarvogssóknar tekur fagnandi á móti séra Sigurði og óskar um leið séra Bjarna Þór velfarnaðar í þjónustunni við Seltjarnarnessöfnuð.
Umrædd vistaskipti voru borin undir sóknarnefndir beggja kirkna og samþykkt þar. Sóknarnefndir beggja sókna fagna því að Þjókirkjan nýti þá möguleika sem hún hefur til að auka fjölbreytni í starfi presta og styrki þannig hið innra starf.
Fyrsta guðsþjónusta séra Sigurðar í Grafarvogskirkju er fyrirhuguð sunnudaginn 7. ágúst kl. 11:00. Kaffi á könnunni eftir messu.
Söfnuðurinn er hvattur til að koma og taka vel á móti nýjum þjóni Grafarvogskirkju!