Kristín Kristjánsdóttir, djákni hefur verið ráðin til djáknaþjónustu við Grafarvogssöfnuð frá 1. september næstkomandi.
Kristín útskrifaðist með BA í guðfræði/djáknanám árið 2014 frá guðfræði– og trúarbragðafræðideild Háskóla Íslands. Hún lauk framhaldsmenntun í sálgæslu frá Háskóla Íslands vorið 2015 og diplómanámi í Handleiðslufræðum frá félagsvísindasviði Háskóla Íslands árið 2018. Þá sótti hún námskeið í sáttarmiðlun frá sáttarmiðlunarskólanum árið 2021. Áður lauk Kristín alþjóðlegu prófi til að stunda óhefðbundnar lækningar á sviði Hómópatíu og starfaði í Heilsuhúsinu og heilsuvöruversluninni Maður Lifandi í mörg ár.
Kristín var vígð til Fella- og Hólakirkju árið 2014. Þá hefur hún starfað við þjónustumiðstöð foreldra langveikra barna, Leiðarljós frá 2014 þar sem hún leiddi sálgæslu fyrir foreldra sem misst hafa börn sín og hélt utan um sorgar og stuðningshópa. Frá árinu 2020 hefur Kristín verið hópstjóri hjá Sorgarmiðstöðinni þar sem hún heldur utan um sorgarhópa, flytur fyrirlestra og er með sálgæsluviðtöl.
Sú nýbreytni hefur orðið í Grafarvogssókn að nú munu þrír prestar og einn djákni þjóna söfnuðinum í stað fjögurra presta. Það mun án efa auka enn fjölbreytni þjónustunnar við Grafarvogsbúa. Starfssvið djákna mun fyrst og fremst felast í þjónustu við eldriborgara, sálgæslu, fræðslu og helgihaldi.
Við bjóðum Kristínu hjartanlega velkomna!