Ég er svo þakklát honum fyrir allt sem hann hefur gert fyrir mig og fjölskyldu mína. Hann hefur gert svo margt fyrir okkur, bæði systkini mín og mig. Hann er eini karlmaðurinn sem hefur virkilega hlustað á mig og tekið mark á mér sem manneskju, ekki bara sem konu.Hann sér mig.
Og mig langar svo að sýna honum hvað ég er þakklát, hversu mikils virði hann er fyrir mig.
Ég held að hann sé sá sem hann segist vera en samt langar mig líka svolítið að hann sé bara venjulegur maður. Ég vona það kannski.
En þó ekki.
Æ, ég veit ekki hvað ég er að hugsa. Ég veit bara að mér þykir svo vænt um hann. Að ég elska hann svo mikið að ég vil gefa honum það dýrmætasta sem ég á. Ilmsmyrslin mín dýrmætu.
Ég ætla að smyrja hann með olíunum mínum. Ég ætla að gefa honum allt sem ég á. Hvað sem hver segir.
Olíunum helt yfir höfuð Jesú
———–
Það eru nokkrar setningar í guðspjöllunum sem Jesús á að hafa sagt sem mér finnst óþolandi. Mig lagnar til að stroka þær út því þær passa ekki við myndina af Jesú. Þær eru svo úr karakter fyrir hann. Þær eru teknar svo úr samhengi sínu, að guðspjallaritararnir hefðu í það minnsta getað verið svo vænir að skrifað smá útskýringar við þær. Það eru liðin meira en 2000 ár síðan þetta gerðist og við þurfum svolitla aðstoð við að skilja.
Ein af þessum setningum sem gera mig pirraða á Jesú er þegar hann segir að það sé allt í lagi að eyða þessum dýru peningunum í hann því fátækt fólk verði hvort sem er alltaf til.
Þetta er svo fullkomlega pólitískt rangt og í algjörri mótsögn við annað sem Jesús boðar. Hann sem er alltaf að tala um að við eigum að hjálpa náunganum og gefa eigur okkar til fátækra. Hann hrósar ekkjunni sem gefur síðustu aurana sína í til velgjörða.
Og það er ekki nóg með að sagt sé frá þessu í guðspjalli dagsins heldur er þessi frásögn, í mismunandi útgáfum, í öllum guðspjöllunum fjórum. Stundum er konan nafnlaus en í Jóhannesarguðspjalli er konan María, systir Mörtu og Lasarusar sem Jesús reisti upp frá dauðum. Og það er einmitt á heimili þeirra sem þessi atburður á sér stað.
Í söngleiknum fræga Jesus Christ Superstar eftir Andrew Lloyd Webber er einmitt fjallað um þetta og þar syngur María þennan fallega söng á meðan hún smyr Jesú með ilmsmyrslunum.
Söngur Vox populi
————–
Hvað átti Jesús við með þessum orðum sínum?
Hér koma nokkrar hugmyndir:
1. Við getum aldrei komið í veg fyrir fátækt hversu mikið sem við viljum það og reynum því það munu alltaf vera til öfl sem hagnast á fátækt annarra. Það er því allt í lagi að nota fjársjóði okkar í fólkið sem okkur er kært.
2. Hún er að nota fjársjóð sinn í sjálfan Guð án þess að þið, eða hún, viti af því. Það er mikilvægara en að gefa fátækum ölmusu.
3. Var hann kannski að vitna í lögbók gyðinga í Gamla testamentinu þar sem segir, að fátækt fólk muni alltaf vera á meðal okkar og að það sé skylda okkar að gefa fátækum með okkur af auði okkar? Það vantaði bara hinn helminginn af tilvitnuninni í lögin enda var hún óþörf þeim sem þekktu það sem hann vísaði í?
4. Var hann kannski að mótmæla hræsni, mögulegri öfundsýki og jafnvel kvenhatri þeirra sem mótmæltu því að konan eyddi fjársjóði sínum í Jesú? Vissi hann kannski að þeir hefðu ekkert endilega sjálfir selt smyrslin og gefið fátækum ef þeir hefðu átt þau? Vissi hann kannski að á meðal gestanna voru vinir hans sem hefðu viljað gera þetta sjálfir og voru ósáttir við að þessi kona hafi sýnt honum meiri kærleika og örlæti en þeir voru færir um? Var þetta hans leið til að stoppa kvenfyrirlitninguna sem svo augljóslega kom fram í mótmælum gestanna.
Já, það er úr mörgu að velja og við munum aldrei komast að hinu raunverulega rétta svari. Við getum hallast að mismunandi skýringum og margir guðfræðingar hafa viljað útskýra þetta með að þetta hafi verið vísun í lögbók gyðinga.
Mér finnst það þó bæði frekar langsótt svar og of mikið lesið inn í orð Jesú.
———
Það er þó nokkuð ljóst að þessi orð Jesú eru engin tilviljun og að höfundar guðspjallana telja sig hafa ríka ástæðu til að setja þau inn. Þar sem þeir nefna þetta allir.
Ekki er ólíklegt að tilgangurinn hafi verið táknrænn og ætti að vísa til þess sem koma skyldi. Að brátt kæmi að dauða Jesú og að þetta væri hans síðasta smurning.
———-
Mig langar til að við hugleiðum það sem við höfum heyrt og upplifað hér í dag, út frá ást og hugrekki.
Mig langar til að við hugleiðum þetta út frá konunni sem sá þetta ekki sem sóun á peningum. Heldur sem það besta sem hún gat gert við þann litla auð sem hún átti.
Og út frá konunni sem lét sig engu varða hvað fólkið í kringum hana hugsaði og hafði hugrekki til að ganga fram og hella ilmolíunum sínum yfir þann sem hún var þakklátust af öllum. Þann sem hún elskaði mest.
Hún gaf Jesú allt sem hún átti og spurning dagsins er; hvað getum við gefið Jesú? Hvernig getum við gefið eitthvað til þess að næra Guðsríkið í heiminum, til þess að heimurinn verði svolítið betri.
Hvað getum við gert þess að fátækt verði útrýmt, til þess að kærleikurinn verði sýnilegur. Til þess að kirkja Krists og boðskapur fái að lifa?
Hvað getur þú gert?
Hvað get ég gert?
Konan vissi sjálf hvað hún gat gert og hún spurði engan. Hún hegðaði sér ekki eins og konur áttu að gera heldur gekk fram í matarboðinu þar sem karlar einir máttu sitja og talaði við sjálfan heiðursgestinn og fór að nudda smyrslum sínum inn í húð hans.
Hún valdi sjálf og hún hafði hugrekki til þess. Hún valdi sjálf að taka áhættu og að taka völdin í lífi sínu. Svolítið eins og íslensku konurnar gerðu, sem beruðu geirvörturnar framan í alheim í vikunni sem leið, og ákváðu að taka völdin yfir kvenlíkamanum í sínar hendur. Kvenlíkamanum sem stöðugt er hlutgerður af körlum.
Hvað þú velur, veltur á þér.
Hvað ég vel, veltur á mér.
En gerum eitthvað.
Verum hugrökk.
Ég held nefnilega að þegar við gefum eitthvað af okkur og af auði okkar til Jesús Krists og erum hugrökk í því að bæta heiminn, þá séum við að vinna gegn fátækt, í öllum myndum, á mun mikilvægari og víðtækari hátt en með ölmusu einni saman.
Amen.