Sunnudaginn 7. júlí síðastliðinn var vígður minnisvarði og torg til minningar um séra Bjarna Þorsteinsson tónskáld og heiðursborgara Siglufjarðar. Minnisvarðann gerði listakonan Ragnhildur Stefánsdóttir og torgið hannaði Fanney Hauksdóttir arkitekt. Steinverkið gerði Þór Sigmundsson steinsmiður. Gefandi minnisvarðans er Arnold Bjarnason og gefandi Bjarnatorgs og stuðlabergs er Siglfirðingurinn Páll Samúelsson.
Það var hrífandi stund þegar „afadrengir“ séra Bjarna, þeir Arnold Bjarnason og Henning Bjarnason, afhjúpuðu minnisvarðann. Sunnangolan lék um hátíðargesti sem voru fjölmargir. Um leið og bræðurnir afhjúpuðu minnisvarðann varð stafalogn – stillilogn.
„Eldhugi við yzta haf“ var séra Bjarni Þorsteinsson nefndur í nýútkominni og vandaðri bók eftir Viðar Hreinsson, sagnfræðing. Þessi yfir8skrift bókarinnar er svo sannarlega réttmæt. Séra Bjarni var „eldhugi“ svo ekki sé meira sagt. „Þúsund þjala smiður í orðsins fyllstu merkingu.“
Séra Bjarni Þorsteinsson var vígður til prests árið 1888. Þjónaði hann Hvanneyrarprestakalli, er síðar var nefnt Siglufjarðarprestakall.
Einnig gegndi séra Bjarni prestsþjónustu í Kvíabekkskirkju. Kannske var það upphafið að sameiningu byggðanna á Ólafsfirði og Siglufirði. Frægar voru ferðir séra Bjarna til Ólafsfjarðar til messugjörðar í Kvíabekkskirkju. Á þeim tíma var Siglufjarðarprestakall eitt „afskekktasta, fámennasta og rýrasta prestakall landsins“. Þegar til Siglufjarðar kom fékk séra Bjarni húsnæði og fæði í svonefndu „Maðdömuhúsi“ á Eyrinni. Þar bjó hann síðar ásamt eiginkonu sinni, Sigríði Lárusdóttur Blöndal, og fjölskyldu eða í ein tíu ár þar til þau fluttu á prestssetrið á Hvanneyri, hvar enn er glæsilegt prestssetur.
Í „ Maðdömuhúsi“ er nú þjóðlagasetur séra Bjarna Þorsteinssonar. Þar skráði hann þjóðlagasafn sitt að stórum hluta.
Ekki er hægt hér í stuttri grein að rekja nákvæmlega hinn merka feril séra Bjarna Þorsteinssonar. Lítum fyrst á þann þátt er snýr að kirkjunni. Hann þjónaði sem sóknar8prestur á Siglufirði í 47 ár.
Hann stóð fyrir byggingu Siglufjarðarkirkju ásamt Siglfirðingum. Við vígslu kirkjunnar, 28 ágúst l932, sagði biskup Íslands, Jón Helgason, orðrétt; „Kirkjan er, og átti hann við Siglufjarðarkirkju, veglegasta guðshús á landi hér.“ Á sínum tíma var hún stærsta kirkja landsins og er ein af þeim stærri enn í dag. Um tíma hýsti hún Gagnfræðaskóla Siglufjarðar, eða í ein 18 ár. Þar er nú glæsilegt safnaðarheimili. Það var mikið lán fyrir Siglufjarðarkirkju og söfnuðinn að séra Bjarni gerði einstakan samning fyrir kirkjuna, samning sem á sér engan líkan hér á landi. Hann seldi íslenska ríkinu Hvanneyrarána til virkjunar. Afhenti hann ríkinu landið við ána með þeim skilyrðum, að Siglufjarðarkirkja fengi frítt rafmagn til upphitunar og lýsingar. Í lok samningsins segir: „Þessi samningur er óuppsegjanlegur um aldur og ævi.“ Þessi samningur stenst, er undirritaður af ráðherra.
Áður en við víkjum frá hinum kirkjulega þætti í lífi séra Bjarna, en hann einn myndi halda nafni hans á lofti hér á landi, um aldur og ævi, skal minnst á Hátíðarsöngvana sem séra Bjarni samdi. Í kirkjunni nefnum við þá „hátíðarlítúrgíuna“ sem er sungin, tónuð af prestum og kirkjukórum á öllum hátíðum kirkjunnar .
Þekkjum við ekki upphafs- og lokaorðin á aðfangadagskvöld, en textinn er úr hinni helgu bók? „Sú þjóð sem í myrkri gengur, sér mikið ljós.“ „Að kvöldi dags skuluð þér vita að Drottinn kemur.“ Á páskum: „Sá steinn sem byggingarmennirnir burt köstuðu, er nú orðinn að hyrningarsteini.“ Eða lok lítaníunnar sem er rituð á legstein þeirra hjóna Sigríðar Blöndal og séra Bjarna á Hvanneyri.
„Ó drottinn, heyr mína bæn.“ Nú þegar við höfum rifjað upp verk séra Bjarna á hinum kirkjulega vettvangi, kem ég að stærsta og merkasta verki séra Bjarna, en það er söfnun íslenskra þjóðlaga, skráning og útgáfa á Þjóðlagasafninu. Fyrst gefið út árið l906. Séra Bjarni safnaði þjóðlögunum saman á árunum l880-l905. Það gekk illa á sínum tíma að fá þjóðlagasafnið útgefið. Jafnvel í þingsölum var hlegið að slíkri útgáfu, það þótti ekki merkilegt að safna saman slíkum lögum. Það fór því svo, sem betur fer, að Þjóðlagasafnið var gefið út á kostnað Carlsbergssjóðsins í Kaupmannahöfn. Jón Ásgeirsson tónskáld segir og er ekki einn um þá skoðun sína „að Þjóðlagasafnið sé mesta og merkasta verk íslenskrar tónlistarsögu“.
Lögin hans séra Bjarna þekkir þjóðin og elskar. Hér má nefna nokkur þeirra: Ég vil elska mitt land – Blessuð sértu sveitin mín – Sólsetursljóðið og Kirkjuhvol.
Nöfn nokkurra laga séra Bjarna eru rituð á stuðlabergið á Bjarnatorgi. Já, saga séra Bjarna er merkileg um svo margt. Hann er oft nefndur „faðir Siglufjarðar og höfundur Siglufjarðar“.
Hann skipulagði Siglufjarðar8kaup8stað. Gerði aðalskipulag bæjarins sem sést best á Eyrinni. Fræðingar á sviði skipulagsmála í dag segja að aðalskipulag kaupstaðarins sé eitt það merkasta á Íslandi. Göturnar á Eyrinni vitna um það. Þær eru beinar og hornréttar. Ekki ólíkt skipulagi New York-borgar.
Séra Bjarni barðist fyrir því, að Siglufjörður fengi kaupstaðarréttindi og var hann þar í fararbroddi. Sú stóra stund rann upp 20. maí árið l918. Það eru því aðeins fimm ár þar til Siglfirðingar fagna hundrað ára afmæli kaupstaðarins.
Við fyrstu kosningar til bæjar8stjórnar í júní árið l9l9 komu fram tveir listar: A-listi studdur af kaupmönnum og útgerðarmönnum og B-listi studdur af verkamönnum.
Bjarni Þorsteinsson var á báðum listum, fékk 136 og hálft atkvæði, sá hinn næsti af frambjóðendum fékk 70 atkvæði. Áður hafði hann verið oddviti hreppsins. Það eru ekki ýkjur að segja að séra Bjarni hafi verið „allt í öllu“ á Siglufirði.
Þegar Siglufjörður er nefndur kemur eðlilega strax upp í huga okkar síldin sjálf, silfur hafsins, en um leið saga séra Bjarna Þorsteinssonar. Séra Bjarni var einkar glæsilegur og myndarlegur maður á velli. Hann var mikill „gleðimaður“, eins og það er orðað í bókinni um hann. Hann hafði yndi af því að gleðjast með glöðum og lyfta glasi í góðra vina hópi. Hann samdi mörg lög og texta, sem þjóðin syngur á gleðistundum lífsins. Nefnum aðeins eitt þeirra: Könnumst við ekki við þetta lag?:
„Það liggur svo makalaust ljómandi á mér.
Mér líkar svo vel, hvernig heimurinn er.
Mér sýnist allt lífið svo ljómandi bjart
Og langar að segja svo dæmalaust margt
Hæ!dúlja ! dúlja ! daj…….
,
Það skilst varla hjá mér eitt einasta orð,
Mér allt sýnist hringsnúast: stólar og borð.
Minn hattur er týndur og horfið mitt úr.
Ég held ég sé kominn á sjóðandi túr.
,
Hæ! dúljá! o.s.frv.
Já, séra Bjarni kom víða við. Ekkert var honum óviðkomandi. Allt lífið skipti máli eins og reyndar er boðað í kirkjunni hans, sem hann þjónaði svo lengi. Fyrir störf sín var séra Bjarni heiðraður á margan hátt: Hann var gerður að heiðursprófess8or við Háskóla Íslands og hlaut riddarakross Hinnar íslensku fálkaorðu.
Bjarni kom víða við. Hann var m.a. einn af forvígsmönnum elstu peningastofnunar landsins, Sparisjóðs Siglufjarðar. Líklega hefur honum þó þótt vænst um þegar Siglfirðingar gerðu hann að sínum fyrsta heiðursborgara.
Sr. Vigfús Þór Árnason