Desember er tími aðventunnar, tími andans og alls þess ósýnilega í tilveru okkar. Þetta er tíminn til að hugleiða komu ljóssins. Þess atburðar í sögu heimsins, þegar Guð gerðist maður í Jesú Kristi. Tími til að hugleiða innra með okkur hvort við séum tilbúin til að taka við því kærleiksljósi inn í líf okkar. Þannig verður aðventan ekki aðeins undirbúningur undir jólin, heldur undir lífið allt. Á viðsjárverðum tímum, líkt og við lifum í dag, getum við orðið völt og veik, tapað frá okkur bjargaráðum og jafnvel misst vonina. Jóladagatal kirkjunnar er vonarmoli í dagsins önn og iðu. Gott er að hefja daginn á því að opna dagatalið, njóta þess sem þar er að finna og bjóða því að setjast að innra með okkur. Jóladagatalið finnurðu hér til hægri á síðunni.