Útvarpsguðsþjónusta kl. 11:00.
Séra Lena Rós Matthíasdóttir prédikar og þjónar fyrir altari.
Hér má hlusta á messuna á vef ríkisútvarpsins
Hér má lesa predikun dagsins á vefnum tru.is
Siglfirðingamessa kl. 13:30.
Séra Vigfús Þór Árnason þjónar fyrir altari.
Stefán Friðbjarnarson fyrrverandi bæjarstjóri Siglufjarðarkaupstaðar prédikar.
Til að lesa prédikun Stefáns ýttu á Áfram.
Útvarpsguðsþjónusta kl. 11:00.
Séra Lena Rós Matthíasdóttir prédikar og þjónar fyrir altari.
Kór Grafarvogskirkju syngur ásamt Barna- og unglingakór kirkjunnar.
Einsöngur: Svava Kr. Ingólfsdóttir.
Organisti: Aðalheiður Þorsteinsdóttir.
Siglfirðingamessa kl. 13:30.
Séra Vigfús Þór Árnason þjónar fyrir altari.
Stefán Friðbjarnarson fyrrverandi bæjarstjóri Siglufjarðarkaupstaðar prédikar.
Kór Grafarvogskirkju syngur ásamt kór Siglufjarðarkirkju.
Organisti: Aðalheiður Þorsteinsdóttir.
Einsöngur: Hlöðver Sigurðsson.
Trompet: Sigurður Hlöðversson.
Prédikun Stefáns Friðbjarnarsonar.
Kæru áheyrendur, konur og karlar. Komið öll blessuð og sæl!
Ég hef mál mitt, sem hefð stendur til, með bæn. Við biðjum hinn hæsta höfuðsmið tilverunnar, hönnuð alls, sem var, er og verður, að gefa okkur KÆRLEIKA:. KÆRLEIKA til almættisins, sem yfir okkur vakir, KÆRLEIKA til kristinnar kirkju um víða veröld, KÆRLEIKA til kristins boðskapar og kristinna gilda, KÆRLEIKA til þeirra sem standa hjarta okkar næst, fjölskyldu og vina, KÆRLEIKA til náungans, hver sem hann er, hvaðan sem hann kemur og hvert sem bakland hans er, KÆRLEIKA til ættjarðar okkar, umhverfis og æskuslóða, KÆRLEIKA til alls sem lifir. Í Jesú nafni. Amen.
Víkjum nú huga okkar norður yfir heiðar þangað sem rætur okkar liggja, margra hverra.
Á milli Eyjafjarðar og Skagafjarðar gengur fram mikill skagi, Tröllaskagi, krýndur hrikalegum fjallgarði, sem teygir himinhá þverhnípt björg út í Norður-Atlantshafið. Inn í þennan skaga skerst úr norðri lítill fjörður, fjöllum vafinn á þrjá vegu, en varinn nesi í norður – gegn öldum úthafsins. Þetta er fjörðurinn okkar, Siglufjörður, lífhöfn sæfaranda frá því land var numið.
Þessi fjörður spannar æskuslóðir margra okkar, sem hér erum saman komin í helgidóminum.
Við munum Siglufjörð á kyrrum sumardögum, þegar sól skein ofar Hólshyrnu og fjallahringurinn stóð á haus í sjávarspegli. Við munum hann í dimmu skammdegi, þegar vetrarveður börðu hús utan og smærri byggingar skefldu í kaf. Við munum þá tíð þegar allar leiðir til og frá Siglufirði, bæði á sjó og landi, vóru lokaðar fannfergi og fimbulveðrum. Við þekkjum frásagnir af fólki, fyrr á tíð, sem varð úti á fjallvegum milli byggða Tröllaskagans.
Við munum þennan stað þegar skógur siglutrjáa fyllti fjörðinn og síldin flæddi um bryggjur og verksmiðjur; þegar Siglufjörður malaði gull í þjóðarbúið og verðandi menntamenn sóttu námseyri hörðum höndum til veiða- og vinnslu. Við munum hann á síldarleysisárum, áður en atvinnuleysisbætur komu til sögunnar, þegar hart var í ári og þröngt í búi, svo vægt sé til orða tekið.
Efst í hugum okkar eru góðu dagarnir, þegar sólin og síldin áttu samleið í lífi bæjarbúa, þegar fjörðurinn varð lognsæll hitapottur, þegar sjómenn og síldarstúlkur dönsuðu á bryggjum – og Karlakórinn Vísir söng við raust á tillidögum. Hinar sárari minningar sitja dýpra, en settu samt sitt mark á okkur, hvert og eitt.
Hvanneyrarhreppur hinn forni spannaði Úlfsdali í vestri, Siglufjörð og Siglunes í miðið, en Héðinsfjörð í austri. Nú eru þessar þrír hlutar hins forna hrepps, sem svo rækilega vóru aðskildir torfærum fjöllum, tengdir jarðgöngum. Og hinn forni Hvanneyrarhreppur tengist senn með jarðgöngum Ólafsfirði, sem gengið hefur í eina sveitarstjórnarsæng með Siglufirði. Og reyndar um leið öðrum byggðum Eyjafjarðar, sem fyrr eða síðar sameinast, að minni hyggju, í eitt stór og sterkt sveitarfélag, í eitt fjölbreytt atvinnusvæði, – í þá fornu Eyjafjarðarbyggð, sem reyndar var ein sýsla um aldir og eitt kjördæmi allar götur til ársins 1942.
Siglufjörður eða Hvanneyrarhrepur – var frá fyrstu tíð og fram um aldamótin 1900 dæmigerð íslenzk strandbyggð. Fólk lifði jöfnum höndum á fiskveiðum og hefðbundum landbúnaði. Reyndar var Siglunes fyrr á tíð – og um aldir verstöð og matarbúar nærsveita, sem mörgum barg, ekki hvað sizt í hörðum árum, sem vóru ófá í tímans rás.
Siglufjörður fékk verzlunarréttindi árið 18l8.
Og Síldarævintýrið, sem hófst upp úr aldamótum 1900, leiddi til mikils vaxtar staðarins alhliða framþróunar á landsvísu. Siglufjörður fékk síðan kaupstaðarréttindi 1918, fyrir réttum 90 árum, sem við fögnum nú. Fremstur baráttumaður fyrir kaupstaðarréttindum og raunar öllum hagsmunamálum Siglfirðinga á þeirri tíð var sóknarpesturinn, tónskáldið og björgunarmaður íslenzkra þjóðlaga, sr. Bjarni Þorsteinsson, oft kallaður, faðir Siglufjarðar. Hans verður minnst í siglfirzku og íslenzku samfélagi meðan tunga okkur verður töluð.
Í hugum Siglfirðinga á mínum aldri rís Siglufjarðarkirkja, sem byggð var undir lok prestsskapar sr. Bjarna Þorsteinssonar, HÁTT í minningunni. Gagnfræðaskólinn okkar var á kirkjuloftinu. Í kennarahópnum, sem bjó okkur undir fullorðinsárin vóru tveir guðfræðingar: Skólastjórinn, Jóhann Jóhannsson, og sóknarpresturinn, séra Óskar J. Þorláksson, síðar dómkirkjuprestur. Það fór ekki hjá því að kristinn boðskapur og kristin gildi seitluðu inn í hug okkar og hjörtu á þessum mótunarárum á kirkjuloftinu. Það hefur gagnast okkur vel á langri ævi. Og æskuminningar, tengdar Siglufjarðarkirkju, undirstrika í huga mínum staðreydnir um farsæla samfylgd íslenzkrar kirkju og íslenzkrar þjóðar í meir en þúsund ár.
Landnámsmenn vóru sumir hverjir kristnir. Meðal annarra þeir norrænu landnámsmenn, sem byggt höðu norðurhluta Bretlands, Orkneyjar, Hjaltland, Suðureyjgar, Írland og Skotland í skemmri eða langri tíma. Margir þeirra höfðu skírst til kristni og gengið að eiga keltneskar kristnar konur. Bæjarnöfn eins og Kristnes í Eyjafirði og Kirkjubær á Síðu tala sínu máli. Í hópi landnámsmanna vóru og kristnir Keltar eða Írar, svo sem bæjarnöfnin Bekansstaðir, Brjánslækur, Kjaransvík og Dufþaksholt færa heim sanninn um. Mannanöfnin Kjaran, Kjarval og Kjartan eru írsk að uppruna. Að auki er talið að ambáttir og þrælar hafi verið um 5-10% þjóðarinnar á landnámsöld, flest keltneskt og kristið fólk. Óhætt er að fullyrða að kristinn siður hafi átt fótfestu á Ísandi frá því land var numið. Það verður ekki sagt um önnur Evrópuríki.
Ritlistin barst til Íslands með kristnum sið í byrjum 11. aldar. Í öndverðu var ritlistin erlendur lærdómur – og jafnframt hjálpartæki kristinnar kirkju. Hinar fornu bókmenntir okkar, sem skópu okkur tilverugrundvöll sem þjóð, vóru að stærstum hluta skráðar af klerklærum mönnum á biskupsstólum og í klaustrum, einkum á 12. og 13. öld. Þýðing heilagrar ritningar á íslenzka tungu um siðaskipti er af fræðimönnum talin ein meginforsenda þess að móðurmál okka hefurr varðveittizt, lítt breytt, fram á okkar daga. Á tungu okkar og menningararfleifð byggjum við síðan bæði menningarlegt og strjórnarfarslegt fullveldi þjóðarinnar.
Því má heldur ekki gleyma því, að hinir fornu biskupsstólar og klaustur vóru nær einu menntastofanir og skólar landsins öldum saman. Auk tilbeiðslu og bókmenntar stóðu munkar og nunnur klaustanna bæði fyrir sjúkra- öldrunarhjálp. Og það var fyrir tilstilli kirkjunnar manna að hér var lögfest tíund þegar árið 1096, en fjórðungur hennar gekk til hjálpar fátækum.
Þetta frumkvæði kristni og kirkju hefur gengið sem rauður þráður gegnum Íslands sögu. Og það er engin tilviljun að krossinn er höfuðtákn í þjóðfánum Norðurlanda, Danmerkur, Finnlands, Færeyja, Noregs, Svíþjóðar og Íslands, þar sem almenn velferð og samhjá
lp mótar samfélög fólks í ríkara mæli en annars staðar. Nei, það er engin tilviljun að kross Krists er í þjóðfánanum og Guð vors lands í þjóðsöngnum. Í sögu okkar hefur krisnin verið áttavitinn og kirkjan kjölfestan. Guði sé lof fyrir það. Megi farsæl tengsl kirkju og þjóðar aldreigi rofna!
En fyrst og fremst erum við sjálf, sem
einstaklingar, höfuðverkefni okkar í lífinu. Musteri mynda oss ber, musterið það erum vér! Við þurfum að rækta okkar eigin garð, okkar innri mann, eigin hug, eigið sálarlíf. Ég þekki engan betri vegvísi í því æfi-verkefni, í því mannrætkarstarfi, en kristinn boðskap: Hann sem er vegurinn, sannleikurinn og lífið.
Já, við erum musteri, veik og smá. Einar skáld Benediktsson, sagði:
Haförninn glæsti og fjörunnar flak
fljóta bæði. Trú þú og vak.
Marmarans höll er sem moldarhrúga.
Musteru Guðs eru hjörtu sem trúa.
Þó hafi þau ei yfir höfði þak.
Textar þeir sem lesnir vóru fyrir okkur úr helgri bók, í upphafi messunnar, minna okkur á þetta meginverkefni okkar, mitt og þitt: Í orðskviðunum sagir: Ótti Drottins er upphaf vizkunnar og að þekkja hinn Heilaga er hyggindi Í þessum spöku orðum felst m.a. að við eigum að virða almættið og allt sköpunarverk þess, þar á meðal okkur sjálf, hvort annað, alla menn, allar þjóðir.
Í þeim hluta Jóhannesarguðspjalls, sem heyrir þessum degi til, segir: Því svo elskaði Guð heiminn að hann gaf son sinn eingetinn til þess að hver sem á hann trúir glatist ekki, heldur hafi eilíft líf. Guð sendi ekki son sinn í heiminn til að dæma heiminn, heldur að heimurinn skyldi frelsast fyrir hann.
Þannig hljóðar fyrirheitið, sem Kristur gaf, þegar hann fór til að búa okkur nýjan stað, nýja lífhöfn.
Við segjum oft á tíð HEIM til Siglufjarðar, þótt við búum sum hver fjarri staðnum. Norðlendingar segja flestir, enn þann dag í dag: heim til Hóla, biskups- og höfuðseturs kristninnar í landsfjórðungnum. Já, við förum öll að lokum HEIM til þess staðar, sem okkur er fyrirbúinn, samkvæmt trú okkar. Þangað getum við ekkert haft með okkur, UTAN ÞAÐ, sem við höfum öðrum gert eða gefið.
Í dag hugsum við HEIM til Siglufjarðar á 90 ára kaupstaðarafmæli staðarins. Við Siglfirðingar, heima og heiman, höldum ár hvert Siglufjarðarhátíð á þessum árstíma. Það er vel. Á þessum tíma í hringferð ársins lifum við það ÁRVISSA KRAFTAVERK, þegar gróðurríki íslenzkrar náttúru vaknar af vetrarsvefni – þegar líf íslenska gróðurríkisins er leyst úr klakaböndum dauðans. Þetta kraftaverk hvunndagsins er aðeins hluti af hinu stóra kraftaverki, sem spannar alheiminn, allt frá örverum, sem augu okkar fá ekki greint, til sólkerfa og vetrarbrauta.
Ég lýk máli mínu með því að þakka ykkur, kirkjugestir, fyrir komuna hingað í helgidóminn í Grafarvogi.
Guð gefi ykkur heilbrigði og kærleika og góðar stundir.