Kór Grafarvogskirkju fór í söngferð til Finnlands og Eistlands dagana 9.-15. júní sl. Með í för voru söngstjórinn Hörður Bragason, sr. Vigfús Þór Árnason, sóknarprestur, sr. Anna Sigríður Pálsdóttir og ýmsir fylgifiskar.
– við finnska guðþjónustu í Klettakirkjunni í Helsinki.
Kór Grafarvogskirkju fór í söngferð til Finnlands og Eistlands dagana 9.-15. júní sl. Með í för voru söngstjórinn Hörður Bragason, sr. Vigfús Þór Árnason, sóknarprestur, sr. Anna Sigríður Pálsdóttir og ýmsir fylgifiskar.
Hápunktur fararinnar var að syngja við finnska guðsþjónustu í Klettakirkjunni sem er fræg kirkja í Helsinki. Kirkjan er sprengd inn í bjarg þannig að veggir kirkjunnar eru berir klettar. Séð utanfrá minnir kirkjan helst á fljúgandi disk sem sett hefur sig niður í miðri borginni. Kirkja þessi dregur að sér ferðamenn víðsvegar að úr heiminum.
Kórinn söng íslenska sálma, þar af einn eftir kórstjórann Hörð Bragason og einn finnskan sálm. Ekki skildu kórfélagar mikið í boðskap predikunarinnar þennan sunnudaginn. Eftir messuna var boðið í kaffi og síðan söng kórinn klukkustundarlanga dagskrá fyrir gesti og gangandi. Gerður var góður rómur að söngnum.
Kórinn flutti einnig tónleika í kirkjunni á Suominlinna sem er eyja úti fyrir Helsinki. Í þeirri kirkju var hrein unun að syngja í ótrúlega góðum hljómburði kirkjunnar.
Í Tallinn voru haldnir tónleikar í Kaarli kirkju sem stendur nálægt Íslandstorgi. Eftir tónleika fengu ferðalangarnir óvænt en velþegið kaffiboð hjá kórfélögum Kaarli kirkju. Tónleikaferð þessi tókst í alla staði vel. Markverðir staðir skoðaðir á milli þess sem raddbönd voru þanin. Ekki sakaði að veðurguðir voru í sínu blíðasta skapi.